Vinstri hornakonan Lilja Ágústsdóttir átti flotta innkomu inn í íslenska landsliðið í handbolta er það lagði það kínverska, 30:23, í síðasta leik liðanna í fyrsta riðli í Forsetabikarnum á HM í Frederikshavn í Danmörku í dag.
Kínverska liðið jafnaði um miðjan seinni hálfleikinn, en þá tók Ísland öll völd á leiknum og vann að lokum sannfærandi sigur.
„Ég var eiginlega ekkert að tékka á töfluna, svo ég vissi ekki að þetta væri svona spennandi fyrr en ég leit á hana og það var lítið eftir. Mér fannst við einhvern veginn alltaf vera með þetta,“ sagði Lilja er hún ræddi við mbl.is eftir leik.
„Þetta var aðeins öðruvísi en ég er vön. Þær eru hraðar og spila aðeins öðruvísi handbolta en það var mjög skemmtilegt að spila við þær,“ bætti hún við.
Perla Ruth Albertsdóttir, sem hefur gert vinstri hornastöðuna að sinni í íslenska liðinu, fékk höfuðhögg um miðjan fyrri hálfleik og spilaði Lilja út leikinn eftir það og gerði vel.
„Þetta var mjög óvæntur tímapunktur því ég hef verið að fá síðustu mínúturnar. Það var geggjað að koma inn á, ná að sýna sig og fá allan seinni hálfleikinn líka.
Mér fannst ég koma vel inn í leikinn, þótt maður vilji auðvitað alltaf fá fleiri færi. Það var geggjað að nýta öll þau færi sem ég fékk í dag,“ sagði hún.
Ísland mætir Kongó í úrslitaleik Forsetabikarsins á miðvikudag, sem er í leiðinni leikur um 25. sæti heimsmeistaramótsins.
„Það er geggjað að vera komin í úrslit og við höfum sýnt að við eigum heima í aðalkeppninni. Við vildum ekki endilega fara í þetta mót en mér finnst æðislegt hvað við höfum sýnt í leikjunum hérna hingað til,“ sagði Lilja.