Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta, var skiljanlega afar svekktur eftir að hafa misst af sæti í milliriðli á HM með einu marki, en Ísland og Angóla gerðu jafntefli, 26:26, í lokaleik liðanna í riðlakeppninni.
Ísland þurfti sigur til að fara áfram. Hann var hins vegar ekki lengi að sleikja sárin, þar sem við tók Forsetabikarinn. Þar hefur Ísland unnið alla þrjá leiki sína og leikur úrslitaleik við Kongó um bikarinn í Frederikshavn í Danmörku í kvöld.
„Ég var alls ekki lengi að jafna mig. Ég var svekktur því við lögðum ansi mikið í þann leik og fannst við eiga meira skilið. En við erum á fyrsta heimsmeistaramótinu í tólf ár og aðeins einn leikmaður í öllum hópnum hefur spilað áður á HM.
Svo eru margir leikmenn sem eru ekki með reynslu í landsleikjum almennt. Þær gerðu marga hluti vel í erfiðum riðli. Við vorum ekki heppin með drátt.
Angóla hefur t.a.m. bæði unnið Austurríki og Suður-Kóreu í milliriðli. Ég var því mjög fljótur að jafna mig eftir jafnteflið,“ útskýrði Arnar.
Leikur Íslands og Kongó hefst klukkan 19.30 í kvöld.