Danmörk síðasta liðið í undanúrslit

Emma Friis skoraði fimm mörk fyrir Danmörku.
Emma Friis skoraði fimm mörk fyrir Danmörku. AFP/Claus Fisker

Danmörk tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum HM 2023 í handknattleik kvenna með því að leggja Svartfjallaland að velli, 26:24, í hörkuleik í fjórðungsúrslitum mótsins í Herning í Danmörku.

Fyrri hálfleikur var hnífjafn lengst af eða allt þar til Danmörk náði þriggja marka forskoti undir lok hans.

Var staðan 13:10 í hálfleik.

Í síðari hálfleik byrjaði danska liðið afskaplega vel og náði mest sjö marka forystu, 20:13, og 21:14, um hálfleikinn miðjan.

Svartfellingar voru hins vegar síður en svo á því að gefast upp og minnkuðu muninn niður í aðeins tvö mörk, 22:20.

Aftur náði Danmörk fínni forystu, 25:21, og þrátt fyrir hetjulega baráttu Svartfjallalands var niðurstaðan að lokum tveggja marka sigur gestgjafanna.

Emma Friis og Anne Mette Hansen voru markahæstar í liði Danmerkur með fimm mörk hvor.

Dijana Mugosa var markahæst í leiknum með sex mörk fyrir Svartfjallaland.

Undanúrslit á föstudag

Danmörk mætir ríkjandi heimsmeisturum Noregs, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, í undanúrslitum heimsmeistaramótsins.

Allir þrír gestgjafar mótsins eru því komnir í undanúrslit þar sem Noregur er einnig gestgjafi ásamt Svíþjóð.

Svíþjóð mætir Þýskalandi í hinum undanúrslitaleiknum.

Báðir undanúrslitaleikirnir fara fram á föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka