Elín Jóna Þorsteinsdóttir átti góða innkomu í íslenska markið undir lokin er það vann 30:28-sigur á Kongó í úrslitum Forsetabikarsins á HM í Frederikshavn í Danmörku í kvöld.
„Við erum svo ótrúlega flottar allar saman. Ég er svo stolt af þessu liði eftir þessa ferð sem við höfum farið í gegnum síðustu daga. Þetta er geggjað,“ sagði kampakát Elín við mbl.is eftir leik.
Íslenska liðið þurfti svo sannarlega að hafa fyrir sigrinum í jöfnum og spennandi leik. „Þær voru skarpar. Hafdís lokaði alveg á þær í fyrri hálfleik en við nýttum það kannski ekki nógu vel. Það var svo geðveikt að ná að klára þetta í seinni hálfleik í spennandi leik.“
„Við erum búnar að leggja ótrúlega mikla vinnu í þetta á mótinu og fyrir mótið sömuleiðis. Það er æðislegt að klára þetta mót svona eftir allt saman.“
Elín er búsett í Danmörku og verður því áfram þar í landi, þar til hún fagnar jólunum heima á Íslandi. „Ég verð í Álaborg til 19. des. Kærastinn er að vera þrítugur og það verður að fagna,“ sagði markvörðurinn að lokum.