Grænlendingar höfnuðu í neðsta sæti

Nastaran Koudzarifarahni og Andrea Heilmann í baráttunni í leiknum í …
Nastaran Koudzarifarahni og Andrea Heilmann í baráttunni í leiknum í dag. AFP/Henning Bagger

Grænlandi tókst ekki að vinna sinn fyrsta og eina sigur á HM 2023 þegar liðið mátti þola tap, 23:28, fyrir Íran í leik tveggja neðstu liða Forsetabikarsins um 31. sætið.

Íran tókst hins vegar að vinna sinn fyrsta sigur á mótinu og um leið að forðast það að hafna í 32. og neðsta sæti heimsmeistaramótsins, sem reyndist hlutskipti Grænlendinga.

Þrátt fyrir lokatölurnar var það Grænland sem hóf leikinn mun betur og komst nokkrum sinnum fjórum mörkum yfir í fyrri hálfleik.

Eftir að Grænland komst í 3:7 tók íranska liðið vel við sér, skoraði sex mörk gegn einu og komst þannig einu marki yfir, 9:8.

Grænland sneri taflinu við að nýju, náði 10:12 forystu en staðan í hálfleik var hins vegar jöfn, 12:12.

Í síðari hálfleik var allt í járnum lengi vel en þegar líða tók á hann sigldi Íran fram úr og vann að lokum kærkominn fimm marka sigur.

Ivalu Cecilie Bjerge var markahæst í leiknum með átta mörk fyrir Grænland.

Fatemeh Merik var markahæst í liði Írans með sex mörk.

Í leiknum um 29. sætið hafði Paragvæ betur gegn Kasakstan, 36:30. Kasakstan hafnar þar með í 30. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert