Ísland vann Forsetabikarinn eftir mikla spennu

Íslenska liðið er Forsetabikarmeistari á HM árið 2023.
Íslenska liðið er Forsetabikarmeistari á HM árið 2023. Ljósmynd/HSÍ

Ísland tryggði sér í kvöld Forsetabikarinn á HM kvenna í handbolta með 30:28-sigri á Kongó í lokaleik liðsins í Frederikshavn í Danmörku. Tryggði liðið sér í leiðinni 25. sæti mótsins.

Kongó byrjaði betur og komst í 3:1 snemma leiks. Ísland svaraði með næstu fjórum mörkum og var staðan 5:3 eftir tíu mínútna leik.

Þegar fyrri hálfleikurinn var hálfnaður var staðan orðin 8:4, eftir tvö mörk í röð í autt mark Kongó. Tók þjálfari Kongó þá leikhlé.

Íslenska liðið hélt frumkvæðinu næstu mínútur en gekk illa að hrista Kongó almennilega af sér. Var staðan 13:11 þegar Arnar Pétursson tók leikhlé. Ísland skoraði næsta mark og komst í 14:11.

Kongó var hins vegar mun sterkari aðilinn í lok hálfleiksins og með þremur síðustu mörkunum tókst Afríkuþjóðinni að jafna í 14:14, sem voru hálfleikstölur og var allt galopið.

Jafnræðið hélt áfram í seinni hálfleik og var staðan 21:21 þegar hann var tæplega hálfnaður og spennan mikil. Kongó tók svo leikhlé í stöðunni 23:23 þegar 14 mínútur voru til leiksloka.

Sú spenna hélst allt til leiksloka, en þegar allt var undir voru taugar leikmanna Íslands sterkari og tveggja marka sigur varð raunin.

Thea Imani Sturludóttir var markahæst í íslenska liðinu með sex mörk og Þórey Rósa Stefánsdóttir gerði fimm. Íslensku markverðirnir vörðu alls 18 skot í markinu. 

Ísland 30:28 Kongó opna loka
60. mín. Sandra Erlingsdóttir (Ísland) skoraði mark Vippar yfir markvörðinn og er væntanlega að tryggja Íslandi Forsetabikarinn!!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert