Skítt með það, við unnum

Þórey Rósa kampakát með bikarinn í leikslok.
Þórey Rósa kampakát með bikarinn í leikslok. Ljósmynd/HSÍ

„Þetta er dásamlegt,“ sagði hornakonan Þórey Rósa Stefánsdóttir í samtali við mbl.is eftir 30:28-sigur Íslands á Kongó í úrslitaleik Forsetabikarins á HM í handbolta í Frederikshavn í Danmörku í kvöld.

„Svekkelsið var mikið þegar við komumst ekki í milliriðil. Eftir það var ekkert annað í stöðunni en að vinna þetta mót. Það var ekkert auðvelt. Ég er rosalega stolt af liðinu og öllum í kringum stelpurnar,“ sagði Þórey.

Leikurinn var jafn og spennandi nánast allan tímann, en íslenska liðið reyndist ögn sterkara í blálokin.

„Við vorum svolítið með leikinn í fyrri hálfleik en svo hleypum við þeim óþarflega nálægt okkur þegar við vorum komnar í góða stöðu. Skítt með það, við unnum þetta,“ sagði Þórey kát.

Þórey Rósa Stefánsdóttir átti flottan leik í kvöld.
Þórey Rósa Stefánsdóttir átti flottan leik í kvöld. Ljósmynd/Jon Forberg

Þórey er eina tveggja barna móðirin í íslenska hópnum og hún bíður spennt eftir að komast heim í jólastemningu. Hún mun hins vegar sakna „systkinanna“ sinna í landsliðinu.  

„Söknuðurinn er mikill og maður hlakkar mikið til að komast heim. Það er sérstaklega skemmtilegt að jólin séu á næsta leyti. Þetta hefur gengið ótrúlega vel en ég neita því ekki að það verður gott að komast heim.

Tuða hvert í öðru 

Við erum samt orðin eins og stór systkinahópur, farin að tuða hvert í öðru og öllum í kringum okkur. Það verður samt viss söknuður líka. Þetta eru skrítnar tilfinningar en í það heila mjög gott,“ sagði hún.

Þórey vildi koma því á framfæri að hún væri þriðja elst í íslenska hópnum þegar hún ræddi við mbl.is snemma á heimsmeistaramótinu. Hin 34 ára Þórey hefur sjaldan verið betri, þrátt fyrir mikið álag.

„Gamla er bara í toppstandi. Þetta hefur gengið ótrúlega vel og eiginlega bara lygilega vel. Ég er stolt af mér og þeim sem hafa verið að nudda mann og náð að virkja einhverja vöðva hjá manni. Mér líður ótrúlega vel,“ sagði hin síunga Þórey Rósa að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka