Sandra Erlingsdóttir, landsliðskona í handbolta, er ekki aðeins atvinnukona í íþróttinni heldur rekur hún einnig fyrirtækið Ps. Árangur með Perlu Ruth Albertsdóttur, liðsfélaga sínum í landsliðinu.
„Pabbi fékk þessa hugmynd og Perla var sú eina sem ég hugsaði um. Ég tók upp tólið, hringdi í hana og hún var geðveikt til í þetta.
Við vorum menntaðar fyrir en vildum mennta okkur aðeins betur. Við skipulögðum okkur vel og unnum vel í þessu í um það bil eitt ár áður en við opnuðum.
Síðan þá hefur gengið ótrúlega vel og okkar samvinna gengur sjúklega vel. Við elskum að vera saman í landsliðsverkefnum og fá vinnutíma saman,“ sagði Sandra um fyrirtækisreksturinn.
Ps. Árangur sérhæfir sig í næringarþjálfun fyrir fólk á öllum aldri. „Þetta er næringarráðgjöf sem er í rauninni fyrir alla. Við erum með alls konar hópa af fólki og tökum við öllum,“ sagði Sandra.
Nánari upplýsingar um Ps. Árangur má nálgast á Instagram-síðu þess og heimasíðu.