Holland hafði betur gegn Svartfjallalandi, 28:25, í leik um 5. til 8. sæti á HM 2023 í handknattleik kvenna í dag. Holland leikur því við Þjóðverja um 5. sæti á sunnudag.
Svartfjallaland og Tékkland mætast einnig á sunnudag, í leik um 7. sætið á mótinu.
Svartfjallaland byrjaði betur og var komið með fimm marka forystu, 4:9, þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður.
Þá var röðin komin að Hollandi sem tók völdin og sneri taflinu við áður en fyrri hálfleikur var úti og leiddi með einu marki, 14:13, í hálfleik.
Í síðari hálfleik var Holland áfram við stjórn og náði mest fimm marka forystu, 28:23, undir lokin áður en Svartfjallaland skoraði síðustu tvö mörk leiksins.
Angela Malestein var markahæst í liði Hollands með átta mörk og skammt undan var Dione Housheer með sjö.
Dijana Mugosa var markahæst hjá Svartfjallalandi með sex mörk.