Þýskaland hafði betur gegn Tékklandi, 32:26, þegar liðin áttust við í leik um 5. til 8. sæti á HM 2023 í handknattleik kvenna í Herning í Danmörku í dag.
Bæði lið féllu úr leik í fjórðungsúrslitum og skar leikur dagsins úr um hvort þeirra myndi leika um fimmta sæti og hvort um sjöunda sæti.
Þjóðverjar hófu leikinn frábærlega og komust fimm mörkum yfir, 7:2, snemma leiks.
Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn vann Tékkland sig stöðugt betur inn í leikinn og náði að minnka muninn niður í eitt mark, 13:12, áður en Þýskaland skoraði síðasta mark hálfleiksins og var staðan í hálfleik 14:12.
Þjóðverjar hófu síðari hálfleikinn með viðlíka krafti og komust fljótlega sex mörkum yfir, 18:12.
Upp frá því áttu Tékkar erfitt uppdráttar og komust ekki nær Þjóðverjum en fjórum mörkum.
Þýskaland náði mest átta marka forystu, 32:24, áður en Tékkland skoraði tvö síðustu mörk leiksins og niðurstaðan var sex marka sigur Þjóðverja.
Þar með er ljóst að kvennalandslið Þýskalands nær sínum besta árangri á Evrópumóti frá árinu 2007.
Viola Leuchter var markahæst í liði Þýskalands með sex mörk.
Marketa Jerabkova skoraði sömuleiðis sex mörk fyrir Tékkland.
Þýskaland mætir annaðhvort Svartfjallalandi eða Hollandi í leiknum um fimmta sætið og sömu sögu er að segja af Tékklandi hvað sjöunda sætið varðar.