Var í rauninni enginn félagsskapur

Elín Jóna flutti til Álaborgar af persónulegum ástæðum.
Elín Jóna flutti til Álaborgar af persónulegum ástæðum. Ljósmynd/Jon Forberg

Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður í handbolta, skipti yfir til Aalborg áður en síðustu leiktíð lauk, þegar liðið var líklegt til að tryggja sér sæti í dönsku úrvalsdeildinni. Það gekk hins vegar ekki eftir og leikur Elín nú með liðinu í B-deildinni.

Elín gerði góða hluti með Ringkøbing í dönsku úrvalsdeildinni, en þurfti að bíta í það súra epli að fara aftur í B-deildina. Þar lék hún með Vendsyssel þegar hún flutti fyrst til Danmerkur árið 2018. Vegna aðstæðna utan vallar ákvað hún að færa sig um set síðasta sumar.

„Þetta var svolítið erfitt. Ég skrifaði undir hjá Aalborg með dönsku úrvalsdeildina í huga og á sama tíma þá býr kærastinn minn í Álaborg. Þetta var svolítið erfitt í Ringköbing, þar sem flestir liðsfélagarnir bjuggu mjög langt í burtu.

Lífið í atvinnumennsku erlendis er ekki alltaf dans á rósum.
Lífið í atvinnumennsku erlendis er ekki alltaf dans á rósum. Ljósmynd/Jon Forberg

Það var í rauninni enginn félagsskapur. Ég var ekki með kærastann minn eða neinn liðsfélaga eða vinkonur nálægt mér. Lovísa (Thompson) flutti svo heim og þetta var rosalega erfitt. Ég tók því ákvörðun að færa mig á stað þar sem mér myndi líða vel og þetta var mikilvægt fyrir mig sem manneskju,“ sagði Elín um félagaskiptin.

Nokkrir samherjar Elínar hjá landsliðinu hafa reynt fyrir sér í atvinnumennsku en snúið aftur heim eftir stuttan tíma erlendis. Hún viðurkennir að lífið í atvinnumennskunni sé ekki alltaf dans á rósum.

Elín Jóna hefur átt flotta spretti á HM.
Elín Jóna hefur átt flotta spretti á HM. Ljósmynd/Jon Forberg

„Það er erfitt þegar maður flytur fyrir eitthvað sérstakt eins og handboltann. Ef það gengur svo ekki eins vel og maður býst við og maður lendir á vegg þá er svo erfitt að halda sér uppi.

Ég er með skólann núna og svo kærastann. Ef handboltinn gengur illa þá er það enginn heimsendir, því maður er með aðra hluti til að halda sér uppi. Þetta er rosalega harður heimur,“ sagði hún.

Þegar Elín skrifaði undir hjá Aalborg benti allt til þess að hún yrði liðsfélagi Andreu Jacobsen, en þær leika saman með íslenska landsliðinu. Andrea þáði hins vegar samningstilboð frá Silkeborg, sem leikur í úrvalsdeildinni.

Elín Jóna fagnar vörðu skoti.
Elín Jóna fagnar vörðu skoti. Ljósmynd/Jon Forberg

„Hún var búin að segja mér frá því að Silkeborg væri búið að tala við hana og fyrsta sem ég sagði var að hún ætti að velja fyrir sig sjálfa.

Handboltaheimurinn er þannig að við eigum að setja okkur sjálfar í fyrsta sætið. Það er geðveikt tækifæri að spila í úrvalsdeild í Danmörku og ég studdi hana 100 prósent í því sem hún valdi,“ sagði Elín.

Markvörðurinn kann afar vel við lífið í Danmörku, eftir fimm ár þar í landi. Hún á ekki von á því að flytja aftur heim til Íslands í bráð.

„Það liggur við. Ég veit ekki hvort ég sé eitthvað á leiðinni heim. Þetta er orðið svolítið slæmt þegar það eru komnar danskar slettur þegar ég fer í viðtöl á íslensku,“ sagði hún létt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert