Eyjakonan skaraði fram úr hjá Íslandi

Sandra Erlingsdóttir bar af í íslenska landsliðinu.
Sandra Erlingsdóttir bar af í íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Jon Forberg

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta hafnaði í 25. sæti af 32 liðum á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð, Noregi og Danmörku sem lauk síðastliðinn sunnudag. Vann liðið í leiðinni Forsetabikarinn, keppni þeirra átta liða sem ekki komust í milliriðla. Var um sætan endi að ræða, þrátt fyrir að liðið hefði ekki náð stóra markmiðinu sem var að fara í milliriðil.

Ísland var einu marki frá því markmiði, en liðið þurfti að vinna Angóla í lokaleik sínum í riðlakeppninni í Stafangri. Þar varð jafntefli, 26:26, niðurstaðan. Dugði það ekki til eftir töp gegn Slóveníu og Frakklandi í tveimur fyrstu leikjunum. Í Forsetabikarnum vann Ísland sigra á Grænlandi, Paragvæ, Kína og Kongó.

Morgunblaðið fer stuttlega yfir frammistöðu hvers og eins leikmanns á mótinu hér fyrir neðan. Byrjar á markvörðunum og svo er farið í stafrófsröð í gegnum leikmannahóp liðsins.

Markverðir

Elín Jóna Þorsteinsdóttir – Sýndi glæsileg tilþrif á milli þess sem hún datt niður, sem er sama saga og hefur verið undanfarin ár. Það vantar stöðuleika í markvarðarstöðurnar. Var maður leiksins gegn Frakklandi og var ótrúleg í vítavörslum en þegar hún á slæman dag á hún oft mjög slæman dag. Þarf meiri stöðuleika.

Hafdís Renötudóttir – Mjög svipuð og Elín Jóna. Byrjaði fyrsta leik en var tekin af velli eftir slaka byrjun. Þurfti að vera þolinmóð eftir það og nýtti tækifærið vel þegar í Forsetabikarinn var komið. Eins og hjá Elínu eru slæmu dagarnir of slæmir og vantar stöðuleika til að komast í allra fremstu röð.

Aðrir leikmenn

Elín Rósa Magnúsdóttir – Óvænt einn besti leikmaður Íslands á mótinu. Er nýkomin inn í liðið og nýtti tækifærið stórglæsilega á HM. Var óhrædd, áræðin og leið vel undir pressu. Skoraði, lagði upp og var komin í byrjunarliðið í tveimur síðustu leikjunum. Mjög góð.

Sandra Erlingsdóttir – Stjarnan í liðinu og sú besta á mótinu hjá íslenska liðinu. Skoraði mest og átti næstflestar stoðsendingar. Sandra er leikmaðurinn sem aðrir leikmenn leita að þegar það vantar töfrabrögð í sókninni. Ekki fullkomið mót hjá henni, þar sem hún missti boltann of oft og var stundum klaufsk, en það var mikil ábyrgð á herðum Eyjakonunnar.

Thea Imani Sturludóttir – Thea óx eftir því sem leið á mótið og endaði sem einn besti leikmaður íslenska liðsins. Átti flestar stoðsendingar og næstflest mörk. Á eftir Söndru er Thea mikilvægasti leikmaður liðsins. Sú eina sem þorði að skjóta fyrir utan og lét varnarmönnum líða illa. Lúmskt mjög gott mót hjá Theu.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir – Þórey var án efa með flest mörk Íslands á mótinu ef miðað er við spilaðar mínútur. Skoraði t.a.m. tíu mörk á móti Grænlandi og sló Íslandsmet yfir fjölda marka í einum leik á stórmóti, þrátt fyrir að hafa aðeins spilað seinni hálfleikinn. Nýtti færin sín mjög vel og hefði mátt spila mun meira.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert