„Það er mikil eftirvænting og búið að vera gaman á æfingum. Við erum bara einbeittir og spenntir,“ sagði Óðinn Þór Ríkharðsson, hægri hornamaður íslenska landsliðsins og svissnesku meistaranna í Kadetten Schaffhausen, í samtali við mbl.is.
Íslenska landsliðið hélt af landi brott í morgun og fór til Austurríkis þar sem liðið leikur tvo vináttuleiki við heimamenn fyrir þátttöku á EM 2024 í Þýskalandi.
Yfirlýst markmið liðsins á mótinu er að tryggja sér sæti í umspili um laust sæti á Ólympíuleikunum í París í sumar. Óðinn Þór kvaðst bjartsýnn á að það takist.
„Já, ég er helvíti bjartsýnn. Við ætlum að byrja á því að vinna riðilinn og svo tökum við stöðuna. Maður er bara bjartsýnn.“
Hann sagði útlitið á leikmannahópnum gott svona skömmu fyrir mót, en Ísland hefur leik á Evrópumótinu eftir slétta viku.
„Menn eru bara í toppstandi og ekki mikið um meiðsli þannig að þetta lítur mjög vel út.“
Snorri Steinn Guðjónsson tók við starfi landsliðsþjálfara á síðasta ári. Borið hefur á áherslubreytingum í leikstíl þar sem Snorri Steinn leggur áherslu á að liðið spili leifturhraðan sóknarbolta.
Óðinn Þór, sem sjálfur er eldsnöggur, sagðist hrifinn af þessum leikstíl.
„Upplifun mín hingað til hefur verið mjög góð. Við spiluðum þessa tvo leiki á móti Færeyjum og núna erum við búnir að æfa mikið og vel.
Þetta er mjög skemmtilegur bolti að spila og það verður mjög gaman að negla á þetta á mótinu.“
Áður en Ísland hefur keppni leikur liðið tvo vináttuleiki við Austurríki í Þýskalandi, þann fyrri á morgun og þann síðari á mánudag.
„Það er mjög mikilvægt að fá þá og verður gaman,“ sagði hann að lokum.