Elliði með fyrirliðabandið á HM

Elliði Snær Viðarsson
Elliði Snær Viðarsson mbl.is/Karítas

Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson verður með fyrirliðabandið þegar Ísland hefur leik á lokamóti HM í handbolta eftir viku.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson er meiddur og missir að minnsta kosti af riðlakeppninni á HM og Ómar Ingi Magnússon varafyrirliði verður ekki með á mótinu vegna meiðsla.

Elliði var með bandið í vináttuleiknum gegn Svíþjóð í kvöld.

„Ekki nema Aron nái einhverjum undraverðum bata. Elliði verður með fyrirliðabandið. Ég er með nokkra menn sem sjá um þetta fyrirliðateymi og gera það vel.

Elliði er leiðtogi og fyrirmyndardrengur. Hann er góður karakter, hefur spilað vel og vaxið sem leikmaður, bæði hjá mér og Gummersbach. Hann á það skilið að mínu mati,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari við mbl.is eftir leik.

Elliði fékk beint rautt spjald í fyrri hálfleik í kvöld er Lukas Sandell lenti á Eyjamanninum. Snorri var ekki sáttur við þann dóm. 

„Það var í mesta falli tvær mínútur. En ég hef ekki lagt það í vana minn að tala mikið um dómgæslu og ég ætla ekki að byrja á því núna,“ sagði Snorri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert