Hafsteinn ekki í lokahópnum

Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha skýtur að marki í leik …
Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha skýtur að marki í leik með Gróttu gegn KA í nóvember síðastliðnum. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha, hægri skytta Gróttu og landsliðs Grænhöfðaeyja, er ekki í lokahópi landsliðsins fyrir HM 2025 í Króatíu, Danmörku og Noregi.

Hafsteinn Óli var í lok desember valinn í 20-manna leikmannahóp Grænhöfðaeyja fyrir mótið en í morgun tilkynnti handknattleikssamband þjóðarinnar um 16-manna lokahóp þar sem nafn hans var hvergi að finna.

Grænhöfðaeyjar eru með Íslandi í G-riðli, sem leikinn verður í Zagreb, og voru því margir farnir að hugsa með spenningi til þess möguleika að fyrsti leikur Hafsteins Óla á stórmóti yrði einmitt gegn Íslandi.

Faðir hans er frá Grænhöfðaeyjum og móðir hans er frá Íslandi.

Ekki liggur fyrir hvort Hafsteinn Óli verði áfram til taks í Zagreb eða hvort Grænhöfðaeyjar hyggist eingöngu reiða sig á þá 16 leikmenn sem skipa lokahópinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert