Tilbúinn en aðeins of seint fyrir HM

Felix Claar í leik með sænska landsliðinu.
Felix Claar í leik með sænska landsliðinu. AFP

Sænski handknattleiksmaðurinn Felix Claar hefur jafnað sig af meiðslum og er klár í slaginn með Þýskalandsmeisturum Magdeburg á nýjan leik.

Félagið skýrði frá þessu í dag en batinn kom aðeins of seint til þess að Claar yrði valinn í sænska landsliðið sem hefur keppni á heimsmeistaramótinu í vikunni. Svíar mæta Japan í fyrsta leik sínum á HM á fimmtudagskvöldið.

Michael Apelgren, þjálfari Svía, gæti þó kippt honum inn í hópinn eftir að mótið hefst. Claar er 27 ára gamall og hefur skorað 196 mörk í 74 landsleikjum.

Hann hefur verið í nokkuð stóru hlutverki þar sem miðjumaður og spilað með sænska liðinu sem hefur fengið þrenn verðlaun á stórmótum á undanförnum fjórum árum.

Þetta eru góðar fréttir fyrir lið Magdeburg sem hefur verið með langan sjúkralista undanfarnar vikur og m.a. er Ómar Ingi Magnússon frá keppni um þessar mundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert