Íslenska karlalandsliðið í handbolta lék tvo leiki ytra við Svíþjóð í undirbúningi fyrir heimsmeistaramótið en fyrsti leikur Íslands á HM er gegn Grænhöfðaeyjum á fimmtudag.
Fyrri leikurinn endaði með 31:31-jafntefli eftir að Ísland var með 31:29-forskot þegar skammt var eftir. Svíþjóð vann svo seinni leikinn 26:24.
„Þetta voru tveir öðruvísi leikir. Þetta var svolítið kaflaskipt á köflum og meira jákvætt í fyrri leiknum en þeim seinni. Það er ekkert til sem heitir hinn fullkomni handboltaleikur. Þetta er leikur mistaka og þú reynir að gera sem fæst mistök í hverjum leik.
Við gerðum allt of mikið af einföldum mistökum í seinni leiknum og við þurfum að skoða það. Við eigum ekki að gera svona mistök. Við ætlum að laga það fyrir HM,“ sagði landsliðsmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson við mbl.is frá hóteli landsliðsins í Zagreb í Króatíu þar sem Ísland leikur í riðli og milliriðli á HM.
„Mér fannst við síðan eiga að vinna báða leikina, sérstaklega fyrri leikinn. Þá breytti stangarskotið mitt í lokin sigri í jafntefli. Okkur fannst við ekki spila neitt sérstaklega í seinni leiknum en samt rétt töpuðum við fyrir einu besta liði heims. Það er jákvætt að standa svona vel í þeim þrátt fyrir að vera ekki sérstaklega nálægt okkar besta.
Við reynum að laga þá hluti sem hægt er að laga og halda áfram að nýta okkur það sem við gerðum vel,“ bætti Gísli við.