Frakkland byrjaði á stórsigri gegn Katar, 37:19, í fyrsta leik C-riðils á HM 2025 í handknattleik karla í Porec í Króatíu í kvöld.
Austurríki og Kúveit mætast í hinum leik riðilsins síðar í kvöld.
Frakkar voru með yfirhöndina allan tímann þar sem staðan var 18:10 í hálfleik og niðurstaðan að lokum 18 marka sigur.
Veselin Vujovic, þjálfari Katars, tilkynnti fyrir leik að hann myndi hvíla nokkra af lykilmönnum sínum í kvöld þar sem liðið væri ekki að berjast við Frakkland um efsta sætið í riðlinum og að hann hefði yfir að skipa nokkrum eldri leikmönnum sem gætu ekki spilað hvern einasta leik.
Thibaud Briet var markahæstur í leiknum með sjö mörk fyrir Frakkland. Aymeric Minne bætti við fimm mörkum.
Frankis Carol, sem fæddist á Kúbu, var markahæstur hjá Katar með fjögur mörk.