Kristján Andrésson, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í handknattleik og síðar þjálfari sænska karlalandsliðsins, segir að Íslendingar séu himinlifandi með niðurröðun heimsmeistaramótsins sem hófst í dag.
Þegar dregið var í riðla mótsins lentu mörg af sterkustu liðunum, svo sem Danir, Spánverjar, Svía, Þjóðverjar og Norðmenn, á sama „væng“ sem þýðir að liðin á hinum vængnum, eins og Frakkland, Ísland, Ungverjaland og Króatía, sleppa við að mæta þeim allt þar til í undanúrslitum mótsins.
Þetta er meðal annars vegna þess að liðum var raðað saman fyrir dráttinn til þess að komast hjá of miklum ferðalögum milli leikstaða í Króatíu, Danmörku og Noregi þegar komið er í útsláttarkeppnina á lokaspretti mótsins.
„Okkar vængur er miklu sterkari en hinn. Nú geta t.d. ekki Spánn, Svíþjóð og Danmörk mæst innbyrðis í úrslitaleik mótsins," sagði Martin Frändsjö, sérfræðingur hjá Viaplay, í hlaðvarpsþætti stöðvarinnar.
Kristján var í sama þætti og tók undir þetta. „Ég er sammála. Íslendingar eru til dæmis hæstánægðir og telja að þeir hafi aldrei átt eins mikla möguleika á að komast í undanúrslit og í þessari keppni," sagði Kristján Andrésson.