„Við vissum að þetta yrði erfiður leikur,“ sagði Aron Kristjánsson þjálfari Bareins í samtali við mbl.is eftir tap fyrir Króatíu, 36:22, í fyrsta leik liðanna á HM karla í handbolta í kvöld. Dagur Sigurðsson þjálfar króatíska liðið.
„Ég er ánægður með vörnina sex á móti sex. Við vorum að standa vel en við vorum í vandræðum í sókninni. Við vorum að klikka úr góðum færum líka og markvörðurinn þeirra var að spila mjög vel.
Mér fannst forskotið þeirra of mikið í hálfleik. Í seinni hálfleik var þetta mjög erfitt hjá okkur. Við náum svo aðeins að saxa á í lokin en svo tók við annar slæmur kafli síðustu mínúturnar. Það versta við leikinn var svo að missa tvo leikmenn í meiðsli,“ sagði Aron.
Aron teflir fram ungu liði á HM í ár í fjarveru sterkra leikmanna.
„Það var vitað fyrir mót að það vantaði marga í okkar lið. Við vorum að vonast til að hafa safnað saman vopnum þegar líður á mótið. Vonandi er þetta ekki alvarlegt.
Það er mikil reynsla fyrir ungu leikmennina. Þetta er þeirra lærdómur fyrir næstu Asíukeppni eftir ár. Þá er gott að fá svona leiki. Leikirnir eru töluvert hraðari í evrópska boltanum en í deildinni í Barein og Sádi-Arabíu,“ sagði hann.
Undirbúningur Arons og hans liðs var ekki eins og best verður á kosið.
„Það var mikið um ferðalög og svo höfum við glímt við meiðsli líka. Það er búið að vera smá ástand en við erum að reyna að byggja okkur upp.“
Barein mætir Egyptalandi í öðrum erfiðum leik á föstudag og síðan Argentínu í mögulegum úrslitaleik um sæti í milliriðli á sunnudag.
„Eins og ég sé þetta núna er þetta 50/50 leikur á móti Argentínu. Við ætlum að reyna að gera eitthvað í þeim leik,“ sagði Aron.