„Ég fór líka á reynslu hjá Lemgo en fékk ekkert tilboð frá þeim þannig að ég skrifaði undir á Spáni,“ sagði handknattleiksmaðurinn fyrrverandi Sigfús Sigurðsson í Dagmálum.
Sigfús, sem er 49 ára gamall, er af mörgum talinn einn besti línumaður sem Ísland hefur átt en hann vann til silfurverðlauna með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.
Sigfús hélt út í atvinnumennsku árið 1998 þegar hann samdi við Caja Cantabria en entist ekki lengi á Spáni.
„Þetta var engin frægðarför,“ sagði Sigfús.
„Ég spilaði ágætlega, eins og ég var að gera hérna heima, en ég mætti illa fyrirkallaður á æfingar. Ég var bæði þunnur og illa lyktandi. Fyrir virkan alkóhólisma og fíkniefnaneytanda þá var þetta ekki gott umhverfi þar sem peningarnir voru enn þá meiri,“ sagði Sigfús.
Við heimkomuna til Íslands var Sigfús skikkaður í meðferð.
„Liðið sagði upp samningnum mínum á endanum eftir að ég féll á einhverju innanbúðarlyfjaprófi. Ég kem svo heim og þá er haldinn fundur daginn eftir með foreldrum mínum, Þorbirni Jenssyni [landsliðsþjálfara] og Jóhanni Inga Gunnarssyni [sálfræðingi],“ sagði Sigfús.
„Þar var ég yfirheyrður og ég laug öllu sem ég gat logið. Þar voru mér gefnir nokkrir kostir og einn af þeim var að fara í meðferð. Ég ætlaði að sýna þessu pakki að ég gæti verið edrú og planið var að fara í meðferð og fá sér svo bara pitsu og bjór um sumarið. Ég fer inn á Vog 11. janúar árið 1999 og er búinn að vera edrú síðan. Þetta fara að verða 26 ár þar sem ég er búinn að vera edrú,“ sagði Sigfús meðal annars.
Viðtalið við Sigfús í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.