Jafnt hjá Sviss og Tékklandi

Lenny Rubin skoraði rétt tæplega helming marka Sviss.
Lenny Rubin skoraði rétt tæplega helming marka Sviss. AFP/Claus Fisker

Sviss og Tékkland gerðu jafntefli, 17:17, í fyrsta leik A-riðils HM 2025 í handknattleik karla í Herning í Danmörku í kvöld.

Stigið gæti reynst mikilvægt fyrir bæði lið í baráttunni um að komast áfram í milliriðil þar sem lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Þýskalandi eru ásamt Póllandi.

Sviss byrjaði leikinn betur og komst í 6:2 en eftir það skellti Tékkland nokkurn veginn í lás, skoraði nokkur mörk og staðan 8:7, Sviss í vil, í hálfleik.

Í síðari hálfleik var áfram lítið skorað og allt í járnum. Var það því við hæfi að leiknum skyldi lykta með jafntefli.

Lenny Rubin var markahæstur í leiknum með átta mörk fyrir Sviss.

Lukas Morkovsky var markahæstur hjá Tékklandi með fimm mörk.

Allt eftir í bókinni í öðrum leikjum

Egyptaland, Holland og Portúgal unnu öll auðvelda sigra í hinum þremur leikjum kvöldsins.

Egyptaland lagði Argentínu 39:25 í H-riðli í Zagreb í Króatíu.

Mohammad Sanad var markahæstur Egypta með sex mörk. Markahæstur í leiknum var Lucas Dario Moscarello með sjö mörk fyrir Argentínu.

Í D-riðli vann Holland einnig stórsigur á Gíneu, 40:23, í Varazdin í Króatíu.

Rutger ten Velde skoraði níu mörk fyrir Holland. Theo Loben og Lilian Pasquet skoruðu fjögur mörk fyrir Gíneu.

Portúgal vann Bandaríkin 30:21 í E-riðli í Bærum í Noregi.

Pedro Portela og Martim Costa voru markahæstir í leiknum með sjö mörk fyrir Portúgal. Samuel Hoddersen skoraði sex mörk fyrir Bandaríkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert