Óvænt úrslit í Ósló

Gustavo Rodrigues sækir að Christian O'Sullivan í leik Brasilíu og …
Gustavo Rodrigues sækir að Christian O'Sullivan í leik Brasilíu og Noregs í kvöld. AFP/Beate Oma Dahle

Brasilía vann afar óvæntan sigur á Noregi, 29:26, þegar liðin mættust í E-riðli HM 2025 í handbolta karla í Ósló í kvöld.

Norðmenn byrjuðu leikinn mun betur og komust fimm mörkum yfir, 7:2 og 8-3, snemma leiks. Brasilía náði að vinna sig betur inn í leikinn og leiddi Noregur með tveimur mörkum, 12:14, að loknum fyrri hálfleik.

Norðmenn héldu ágætis dampi í byrjun síðari hálfleiks en Brasilía var ekki langt undan og tókst að jafna metin í 19:19.

Í kjölfarið skiptust liðin á að ná eins marks forystu. Noregur komst þannig í 23:24 en Brasilía svaraði með því að skora þrjú mörk í röð og komust þannig tveimur mörkum yfir, 26:24, í fyrsta sinn í leiknum.

Tókst Brössum að halda út og vinna glæsilegan þriggja marka sigur.

Haniel Langaro var markahæstur í leiknum með sjö mörk fyrir Brasilíu. Bryan Monte bætti við sex mörkum.

Hjá Noregi var Tobias Gröndahl markahæstur með sex mörk. Magnus Röd var skammt undan með fimm mörk.

Háspennujafntefli í D-riðli

Ungverjaland og Norður-Makedónía skildu jöfn, 27:27, í háspennuleik í D-riðli í Varazdin í Króatíu.

Norður-Makedónía var sterkari aðilinn framan af fyrri hálfleik og náði nokkrum sinnum þriggja marka forystu.

Ungverjar náðu hins vegar að jafna metin í 14:14 áður en hálfleikurinn var úti og skildi ekkert á milli liðanna í þeim síðari.

Svo jafn var síðari hálfleikurinn að liðin náðu mest eins marks forystu, skiptust á að gera það og sættust að lokum á jafnan hlut.

Filip Kuzmanovski var markahæstur í leiknum með níu mörk fyrir Norður-Makedóníu.

Hjá Ungverjalandi var Zoran Ilic markahæstur með sex mörk. Richárd Bodó bætti við fimm mörkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert