„Þetta var fínt. Við mættum á fullu í leikinn og kláruðum þetta,“ sagði Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handbolta, í samtali við mbl.is eftir 34:21-sigurinn á Grænhöfðaeyjum í fyrsta leik á HM í kvöld.
Frammistaða Íslands var góð, þrátt fyrir slæman kafla um miðbik seinni hálfleiks.
„Við töluðum um í hálfleik að við ætluðum að halda áfram og keyra á þá. Við byrjuðum seinni hálfleikinn vel en svo kom smá kafli. Svona getur gerst.
Við réttum úr því og unnum seinni hálfleikinn líka. Þetta var flott en svolítið margir tæknifeilar á ákveðnum augnablikum,“ sagði hann.
Elvar var sérstaklega sáttur við fyrri hálfleikinn, sem vannst með tíu mörkum.
„Við keyrðum vel á þá, fengum hraðaupphlaup, seinni bylgju og Viktor varði vel í markinu. Við stálum líka mörgum boltum og fengum auðveld mörk. Við erum bara að hugsa um okkur og við vildum hlaupa allan leikinn og mér fannst það takast vel.“
Næst á dagskrá er leikur gegn Kúbu annað kvöld. „Við förum að skoða þá núna. Við mætum eins til leiks og ætlum að keyra upp hraðann,“ sagði Elvar.