„Það er kominn fiðringur í mann,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson í samtali við Morgunblaðið en Aron hefur ekkert æft með liðinu í aðdraganda heimsmeistaramótsins vegna meiðsla í kálfa. Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska liðsins, vonast þó til þess að landsliðsfyrirliðinn verði orðinn klár í slaginn í fyrsta leik í milliriðli sem fer fram 22. janúar, takist íslenska liðinu að komast upp úr riðlinum.
Landsliðsfyrirliðinn er sá eini í hópnum í dag, ásamt Björgvini Páli Gústavssyni, sem var í bronsliði Íslands á Evrópumótinu árið 2010 í Austurríki.
„Það hefur verið risastórt markmið hjá mér persónulega, alveg frá því að við unnum til bronsverðlauna árið 2010, að vinna aftur til verðlauna með landsliðinu. Ég hef sagt það áður að ég held að ég hafi sjaldan verið jafn fullur eldmóðs þegar kemur að því að afreka eitthvað, bæði með félagsliðinu mínu og auðvitað landsliðinu, eins og ég er í dag.
Við erum búin að tala um það núna í nokkur ár að við erum með mjög gott landslið í höndunum. Við erum með leikmenn sem eru í stórum hlutverkum í Meistaradeildinni til dæmis og það er fyrst og fremst undir okkur sjálfum komið að koma okkur á þann stað sem við teljum okkur eiga heima á,“ bætti landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson við í samtali við Morgunblaðið.