Ísland vann öruggan sigur á Grænhöfðaeyjum, 34:21, í fyrsta leik sínum í G-riðli á heimsmeistaramóti karla í handbolta í Zagreb Arena í höfuðborg Króatíu í kvöld.
Íslenska liðið byrjaði af krafti og í stöðunni 2:2 skoraði Ísland sex mörk í röð. Var staðan því 8:2 þegar fyrri hálfleikur var tæplega hálfnaður og íslenska liðið strax komið með góð tök á leiknum.
Ísland hélt áfram að bæta í forskotið og var staðan 16:7 þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik. Þá dró til tíðinda því fyrirliðinn Elliði Snær Viðarsson fékk beint rautt spjald fyrir að slá Edmilson Araujo í andlitið en um óviljaverk var að ræða.
Að lokum munaði tíu mörkum í hálfleik, 18:8, og aðeins spurning hve stór sigur íslenska liðsins yrði.
Íslenska liðið hélt áfram að auka forskotið framan af í fyrri hálfleik og var munurinn 13 mörk þegar 20 mínútur voru eftir, 23:10.
Liðsmenn Grænhöfðaeyja neituðu að gefast upp og tókst þeim að minnka muninn aftur niður í níu mörk, 25:16, þegar seinni hálfleikur var hálfnaður.
Ísland tók þá við sér, skoraði næstu þrjú mörk og komst tólf mörkum yfir þegar skammt var eftir, 28:16. Skiptust liðin á að skora eftir það og sannfærandi íslenskur sigur varð raunin, þrátt fyrir mun slakari seinni hálfleik.
Næsti leikur Íslands er gegn Kúbu á laugardagskvöld. Lokaleikur riðilsins er svo við Slóveníu næstkomandi mánudagskvöld.
Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur í leiknum með átta mörk fyrir Ísland og það úr jafnmörgum skotum. Óðinn Þór Ríkharðsson bætti við fimm mörkum.
Bjarki Már Elísson skoraði fjögur mörk og Viktor Gísli Hallgrímsson varði átta skot í markinu.
Hjá Grænhöfðaeyjum var Leandro Semedo markahæstur með fimm mörk. Edmilson Goncalves varði sex skot, öll í síðari hálfleik.
Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha kom inn á í sínum fyrsta leik á stórmóti hjá Grænhöfðaeyjum í lokin.