Íslenska karlalandsliðið í handknattleik mætir Grænhöfðaeyjum í fyrsta leik sínum í G-riðli heimsmeistaramótsins í Zagreb í kvöld en mótið fer fram í Króatíu, Danmörku og Noregi.
Leikstjórnendur íslenska liðsins, þeir Gísli Þorgeir Kristjánsson og Janus Daði Smárason, eru báðir á meðal færustu leikstjórnenda heims í dag en Gísli leikur með Þýskalandsmeisturum Magdeburg á meðan Janus er samningsbundinn Pick Szeged í Ungverjalandi.
Elliði Snær, sem er 26 ára gamall, er samningsbundinn Gummersbach í þýsku 1. deildinni en hann er uppalinn hjá ÍBV í Vestmannaeyjum.
Elliði Snær lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Svíþjóð 2019 en alls á hann að baki 52 landsleiki þar sem hann hefur skorað 113 mörk. Heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður fimmta stórmót Elliða.
Einar Þorsteinn, sem er 23 ára gamall, er samningsbundinn Fredericia í dönsku úrvalsdeildinni en hann er uppalinn hjá Val á Hlíðarenda.
Varnarmaðurinn lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Færeyjum í nóvember árið 2023 í Laugardalshöllinni. Hann á að baki 16 landsleiki og fimm mörk. Hann er á leið á sitt annað stórmót með íslenska landsliðinu.
Gísli Þorgeir, sem er 25 ára gamall, er samningsbundinn þýska stórliðinu Magdeburg en hann gekk til liðs við félagið frá Kiel árið 2020.
Gísli Þorgeir lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Svíþjóð árið 2017 en alls á hann að baki 64 landsleiki þar sem hann hefur skorað 142 mörk. Heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður sjötta stórmót Gísla Þorgeirs.
Janus Daði, sem er þrítugur, er samningsbundinn Pick Szeged í Ungverjalandi en hann er uppalinn á Selfossi.
Janus Daði lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Úkraínu í undankeppni EM í Sumy árið 2016 en alls á hann að baki 88 landsleiki þar sem hann hefur skorað 150 mörk. Hann er á leið á sitt áttunda stórmót með íslenska liðinu.
Sveinn, sem er 25 ára gamall, er samningsbundinn Noregsmeisturum Kolstad en hann gekk til liðs við félagið frá Minden í Þýskalandi síðasta sumar.
Sveinn lék sinn fyrsta A-landsleik árið 2019 en alls á hann að baki 15 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað 24 mörk. Línumaðurinn er á leið á sitt annað stórmót með íslenska landsliðinu.
Ýmir, sem er 27 ára gamall, er samningsbundinn Göppingen í þýsku 1. deildinni en hann gekk til liðs við félagið síðasta sumar eftir fjögur ár í herbúðum Rhein-Neckar Löwen.
Ýmir lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Noregi árið 2017 en alls á hann að baki 94 landsleiki þar sem hann hefur skorað 39 mörk. Hann er á leið á sitt áttunda stórmót með landsliðinu.