Flestir leikmannanna sem leika með landsliðum sínum á heimsmeistaramóti karla í handknattleik spila með þýskum félagsliðum, eða alls 101 leikmaður.
Af þeim leika 87 í þýsku 1. deildinni, efstu deild Þýskalands og sterkustu deild heims. Þar á meðal er allt þýska landsliðið, tólf af leikmönnum dönsku heimsmeistaranna, sjö í landsliði Austurríkis og sex í landsliðum Íslands, Hollands og Sviss.
Af þessum tólf leikmönnum Dana spila sjö með liði Flensburg, sem er nánast á landamærum Þýskalands og Danmerkur.
Þá leika ellefu landsliðsmenn á mótinu með liðum í þýsku B-deildinni, flestir þeirra frá Bandaríkjunum, eða þrír talsins.
Loks spila þrír leikmenn á HM með áhugamannaliðum í neðri deildum Þýskalands. Tveir þeirra með liði Bandaríkjanna og einn, Ivo Santos, er í liði Grænhöfðaeyja sem mætir Íslandi í kvöld en hann spilar þar með varaliði Bergischer eftir að hafa verið í hópi aðalliðsins undanfarin fimm ár.
Skemmtilega samantekt á leikmönnum á HM sem spila með þýskum liðum má sjá á heimasíðu þýsku deildanna.