Risasigur Slóvena í riðli Íslands

Aleks Vlah skoraði átta mörk fyrir Slóveníu.
Aleks Vlah skoraði átta mörk fyrir Slóveníu. Ljósmynd/IHF

Slóvenía gjörsigraði Kúbu, 41:19, í fyrsta leik G-riðils á HM 2025 í handbolta karla í Zagreb í Króatíu í kvöld. Liðin eru með Íslandi og Grænhöfðaeyjum í riðli.

Eins og oft vill verða var mikið jafnræði með liðunum til að byrja með en eftir að Kúba jafnaði í 3-3 tók Slóvenía leikinn alfarið yfir og náði mest tólf marka forystu, 16:4, í fyrri hálfleik.

Kúba lagaði aðeins stöðuna og var munurinn níu mörk, 18:9, þegar flautað var til hálfleiks.

Í síðari hálfleik reyndist það formsatriði fyrir Slóveníu að klára leikinn og varð munurinn mestur 22 mörk sem reyndist einmitt munurinn þegar upp var staðið.

Aleks Vlah var markahæstur í leiknum með átta mörk fyrir Slóveníu. Tadej Kljun bætti við sex mörkum.

Dariel García Rivera var markahæstur hjá Kúbu með fjögur mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert