Þá lendir þú í veseni

Elvar Örn Jónsson ræðir við mbl.is.
Elvar Örn Jónsson ræðir við mbl.is. mbl.is/Eyþór Árnason

Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætir Grænhöfðaeyjum í fyrsta leik sínum á heimsmeistaramótinu klukkan 19.30 í Zagreb í kvöld.

Er um skyldusigur að ræða, eins og í öðrum leik gegn Kúbu. Ísland fær svo verðugt verkefni gegn Slóveníu í lokaleik riðilsins.

„Við erum fyrst og fremst að hugsa um þennan fyrsta leik. Við megum ekki hugsa of langt fram í tímann. Við hugsum um einn dag í einu. Við viljum vera vel undirbúnir fyrir fyrsta leik.

Ef þú tekur þessum leikjum ekki alvarlega þá lendir þú í veseni. Það sást á móti Georgíu um daginn. Við viljum samt úrslitaleik á móti sterku liði Slóvena,“ sagði Elvar Örn Jónsson, leikmaður Íslands, í samtali við mbl.is á hóteli liðsins í Zagreb.

Elvar hefur samið við Magdeburg og byrjar að leika með liðinu á næsta tímabili. Hann er sem stendur hjá Melsungen, sem er í toppsæti þýsku 1. deildarinnar.

„Það er mjög spennandi. Mér finnst þetta vera rétta skrefið fyrir mig. Þetta lið hefur spilað í Meistaradeildinni undanfarin ár og vonandi heldur það áfram,“ sagði Elvar Örn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert