Sveinn Jóhannsson kom óvænt inn í HM-hóp íslenska landsliðsins í handbolta þegar Arnar Freyr Arnarsson meiddist gegn Svíþjóð í undirbúningi fyrir mótið. Sveinn var valinn í verkefnið gegn Bosníu og Georgíu í nóvember á síðasta ári en var síðan ekki í HM-hópnum í kjölfarið.
„Ég var mjög svekktur yfir að vera ekki valinn fyrst en ég treysti landsliðsþjálfaranum fyrir því að velja það sem hann telur best fyrir liðið. Ég horfi á það sem hvatningu að gera betur að ég hafi ekki verið í upprunalega hópnum.
Ég ætla að gera allt sem ég get núna til að sýna að það hafi verið vitlaust val að velja mig ekki í hópinn,“ sagði Sveinn ákveðinn við Morgunblaðið.
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun.