Sveinn Jóhannsson, línumaður íslenska landsliðsins í handbolta, mátti ekki koma inn á síðasta korterið í leik liðsins gegn Grænhöfðaeyjum í fyrsta leik á HM í Zagreb í Króatíu í gærkvöldi.
Varð Sveinn fyrir því óláni að stafirnir aftan á treyjunni hans rifnuðu eftir baráttu við varnarmenn Grænhöfðaeyja og var ekki önnur treyja með nafni Sveins til taks. Mátti hann því ekki fara aftur inn á völlinn.
Sveinn var ekki í upprunalega hópnum fyrir HM en var kallaður inn þegar Arnar Freyr Arnarsson meiddist.
Þar sem Elliði Snær Viðarsson fékk rautt spjald í fyrri hálfleik og Sveinn mátti ekki spila á lokakaflanum kom það í hlut Ýmis Arnar Gíslasonar að spila nánast allan leikinn.