Portúgal, Egyptaland og Holland tryggðu sér sæti í milliriðlakeppni heimsmeistaramóts karla í handknattleik með sigrum í dag en fjórum fyrri leikjum dagsins á mótinu var að ljúka.
Portúgal vann Brasilíu í E-riðlinum í Bærum í Noregi, 30:26, eftir að hafa verið undir fram í miðjan síðari hálfleik. Martim Costa skoraði níu mörk fyrir Portúgal í leiknum.
Portúgal er með fjögur stig og Brasilía tvö en Noregur og Bandaríkin eru án stiga og mætast í kvöld.
Egyptaland vann lærisveina Arons Kristjánssonar í Barein mjög örugglega í H-riðlinum í Zagreb, 35:24.
Egyptar eru með fjögur stig, Króatar tvö en Argentína og Barein eru án stiga. Króatía og Argentína mætast í kvöld.
Holland vann Norður-Makedóníu í D-riðlinum í Varazdin í Króatíu, 37:32. Rutger Ten Velde skoraði 11 mörk fyrir hollenska liðið í leiknum.
Holland er með fjögur stig, Ungverjaland eitt, Norður-Makedónía eitt og Gínea ekkert en Ungverjaland og Gínea mætast í kvöld.
Loks gerðu Tékkland og Pólland jafntefli, 19:19, í A-riðlinum í Herning í Danmörku en þar er um jafnasta riðil keppninnar að ræða.
Þýskaland er með tvö stig, Tékkland tvö, Sviss eitt og Pólland eitt en Þýskaland, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, mætir Sviss í kvöld.