Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann öruggan sigur á Kúbu, 40:19, í öðrum leik sínum á HM karla í handbolta í Arena Zagreb-höllinni í höfuðborg Króatíu í kvöld. Ísland leikur úrslitaleik við Slóveníu um toppsæti riðilsins á mánudagskvöldið.
Liðin skiptust á að skora í upphafi leiks og var staðan 3:3 eftir tæpar fimm mínútur. Elliði Snær Viðarsson kom Íslandi svo yfir í fyrsta skipti í stöðunni 4:3.
Aron Pálmarsson breytti stöðunni svo í 5:3 með sínu öðru marki og greinilegt að fyrirliðinn er í góðu formi eftir meiðsli undanfarnar vikur, en hann spilaði um hálfan fyrri hálfleikinn. Munurinn var síðan fjögur mörk í stöðunni 9:5 eftir tíu mínútna leik.
Ísland hélt áfram að keyra yfir Kúbu og var munurinn níu mörk þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður, 14:5. Þegar fyrri hálfleikur var allur munaði tólf mörkum á liðunum, 21:9, og stefndi í þægilegan seinni hálfleik.
Munurinn var kominn upp í 15 mörk snemma í seinni hálfleik, 25:10. Vont varð síðan verra fyrir Kúbu þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður því Maiko Vázquez fékk beint rautt spjald fyrir að brjóta illa á Orra Frey Þorkelssyni.
Ísland hélt áfram að bæta í forskotið og var munurinn 18 mörk þegar seinni hálfleikur var hálfnaður, 31:13. Var þá aðeins spurning hve stór sigurinn yrði. Að lokum munaði 21 marki á liðunum.
Orri Freyr Þorkelsson, Þorsteinn Leó Gunnarsson og Elliði Snær Viðarsson voru markahæstir hjá Íslandi með fimm mörk hver. Viggó Kristjánsson skoraði fjögur. Viktor Gísli Hallgrímsson varði átta skot í markinu og Björgvin Páll Gústavsson sjö.