Boðsliðið í milliriðil - Pólland í forsetabikarinn

Svisslendingurinn Lenny Rubin með boltann í leiknum gegn Pólverjum í …
Svisslendingurinn Lenny Rubin með boltann í leiknum gegn Pólverjum í dag. AFP/Claus Fisker

Sviss tryggði sér í dag sæti í milliriðli heimsmeistaramóts karla í handknattleik með því að sigra Pólverja í lokaumferð A-riðils í Herning í Danmörku.

Lokatölur urðu 30:28 í hreinum úrslitaleik um hvort liðanna færi áfram. Þýskaland er með 4 stig, Sviss 3, Tékkland 2 og Pólland eitt stig en Þýskaland og Tékkland mætast síðar í dag. Þrjú efstu liðin fara í milliriðil en það verður hlutskipti Pólverja að fara í Forsetabikarinn, keppni liðanna átta sem enda í botnsætum riðlanna.

Þetta er óvænt niðurstaða því Sviss vann sér ekki keppnisrétt á HM en fékk annað tveggja boðssætanna (wildcard).

Lenny Rubin, Dimitrij Küttel og Noam Leopold skoruðu fimm mörk hver fyrir Sviss en Damian Przytula skoraði níu mörk fyrir Pólverja.

Þar með er ljóst að milliriðill eitt verður þannig skipaður: Danmörk, Þýskaland, Tékkland, Ítalía, Sviss og Túnis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert