Egyptar skelltu Króötum - Norðmenn í vanda

Dagur Sigurðsson þjálfar Króata sem töpuðu fyrir Egyptum á heimavelli …
Dagur Sigurðsson þjálfar Króata sem töpuðu fyrir Egyptum á heimavelli í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Egyptar sýndu styrk sinn í kvöld þegar þeir unnu Króata sannfærandi, 28:24, í úrslitaleik H-riðilsins á heimsmeistaramóti karla í handknattleik í Zagreb í Króatíu.

Þar með fara Egyptar með 4 stig í milliriðil fjögur en Króatar með tvö stig  og Argentínumenn ekkert.

Við riðilinn bætast svo Ísland og Slóvenía sem eru með 2 stig hvort og mætast annað kvöld, og svo annað hvort Grænhöfðaeyjar eða Kúba.

Dagur Sigurðsson og hans menn í króatíska liðinu þurfa því á sigrum að halda gegn Íslandi og Slóveníu til að komast í átta liða úrslit mótsins en aðeins tvö lið komast áfram úr milliriðlinum sem hefst á miðvikudaginn.

Norðmennirnir stigalausir áfram

Norðmenn töpuðu sínum öðrum leik á mótinu í kvöld þegar Portúgalar sigruðu þá 31:28 í Bærum í Noregi. Norska liðið fer því stigalaust í milliriðil en Portúgal fer þangað með 4 stig og Brasilía með 2 stig.

Ungverjar unnu Hollendinga í lokaleik D-riðils í Varazdin í Króatíu, 36:32, og unnu þar með riðilinn. Þeir fara áfram með þrjú stig, Hollendingar tvö og Norður-Makedónar með eitt stig.

Þessi lið fara í milliriðil tvö þar sem einnig verða Frakkland með fjögur stig, Austurríki með tvö og Katar sem fer áfram án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert