„Mér líður mjög vel og ég var hæstánægður með ákefðina,“ sagði Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is í Zagreb Arena í Zagreb í Króatíu í kvöld.
Íslenska fer áfram í milliriðla með fullt hús stiga eða fjögur stig eftir riðlakeppnina þar sem Egyptaland, Króatía og Argentína verða mótherjar Íslands.
„Þeir áttu ekki möguleika í okkur, varnarlega, allan leikinn og svo var Viktor Gísli í algjörum heimsklassa fyrir aftan og var algjörlega frábær. Við vorum lélegir síðasta korterið og við þurfum að bregðast aðeins betur við framliggjandi vörn mótherjanna en ég hefði tekið þessum úrslitum allan daginn fyrir leik,“ sagði Aron.
Íslenska liðinu gekk ekkert sérstaklega vel fyrir framan markið á síðustu mínútum leiksins en það kom þó ekki að sök.
„Mér leið vel allan leikinn og ég hafði litlar áhyggjur af því, sérstaklega af því að Viktor Gísli hélt bara áfram að verja. Þetta var þannig leikur að það var enginn sem var í fyrsta eða öðrum gír. Það voru allir í fimmta gír og mér fannst við vera alveg með þá allan leikinn og sigurinn var síst of stór.“
Hversu góður markvörður er Viktor Gísli, þegar hann er í þessum ham, miðað við þá markmenn sem þú hefur spilað með í gegnum tíðina?
„Hann er á toppnum, það er bara þannig. Það er ekki hægt að biðja um meira frá markmanni þegar horft er til frammistöðu hans í dag. Hann er alltaf að bæta sig og hann sýndi það í dag hversu góður hann er orðinn. Hann er orðinn mjög stöðugur og vonandi heldur hann þessu áfram.“
Er Ísland í dauðafæri að komast í átta liða úrslitin eftir frammistöðu kvöldsins?
„Við erum með fjögur stig og það er búið að tala um 8 til 10 stig til að komast í 8-liða úrslitin. Það þýðir að við þurfum að vinna allavega tvo leiki í milliriðli. Það eru úrslitaleikir framundan en við tökum einn dag í einu. Við ætlum okkur að halda áfram að safna stigum og að sjálfsögðu ætlum við okkur áfram í 8-liða úrslitin úr þessu,“ bætti Aron við í samtali við mbl.is í Zagreb.