Ísland í góðum málum eftir sannfærandi sigur

Ísland vann glæsilegan sigur á Slóveníu, 23:18, í úrslitaleik G-riðils á HM karla í handbolta í Zagreb í Króatíu í kvöld. Með sigrinum tryggði Ísland sér efsta sæti riðilsins og tekur með sér fjögur stig í milliriðil þar sem andstæðingarnir verða Króatía, Egyptaland og Argentína.

Íslenska vörnin stóð mjög vel í upphafi leiks og var staðan 4:1, Íslandi í vil, eftir tæpar tíu mínútur. Slóvenar sóttu í sig veðrið og nýttu sér tvær brottvísanir á íslenska liðið á skömmum tíma. Munaði einu marki þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður, 5:4.

Elliði Snær Viðarsson skorar
Elliði Snær Viðarsson skorar mbl.is/Eyþór

Þá tók við ótrúlegur kafli. Íslenska vörnin skellti algjörlega í lás með magnaðan Viktor Gísla Hallgrímsson þar fyrir aftan. Hinum megin komu auðveldu mörkin og var staðan 11:4 þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Liðin skiptust á að skora eftir það og munaði sex mörkum í hálfleik, 14:8. Viktor Gísli Hallgrímsson var stórkostlegur í fyrri hálfleik og varði tíu skot, mörg úr dauðafærum. Aron Pálmarsson skoraði fjögur mörk.

Brotið á Janusi Daða Smárasyni í dauðafæri í kvöld.
Brotið á Janusi Daða Smárasyni í dauðafæri í kvöld. mbl.is/Eyþór

Slóvenía skoraði fyrsta mark seinni hálfleiks og Elvar Örn Jónsson fékk sína þriðju brottvísun og þar með rautt spjald eftir tæpar fimm mínútur í hálfleiknum í stöðunni 14:9.

Þrátt fyrir það hélt Ísland undirtökunum næstu mínútur og munaði sjö mörkum þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik, 17:10.

Ýmir Örn Gíslason á línunni í kvöld.
Ýmir Örn Gíslason á línunni í kvöld. mbl.is/Eyþór

Ísland náði svo níu marka forskoti í fyrsta skipti í stöðunni 19:10 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. Slóvenía sótti aðeins á og var staðan 20:13 þegar tíu mínútur voru eftir.

Hún var svo 21:15 þegar fimm mínútur voru til leiksloka og íslenska liðið enn með leikinn í höndum sér, þrátt fyrir að eiga í erfiðleikum í sókninni. Slóvenska liðið var aldrei líklegt til að jafna og á Ísland góða möguleika á að fara í átta liða úrslit á mótinu. 

Viggó Kristjánsson var markahæstur hjá Íslandi með sjö mörk, þar af fjögur úr vítum, Aron Pálmarsson skoraði fimm og Orri Freyr Þorkelsson og Janus Daði Smárason voru næstir með þrjú. Viktor Gísli Hallgrímsson með 16 skot varin, þar af eitt vítakast. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ísland 23:18 Slóvenía opna loka
60. mín. Ísland tekur leikhlé Snorri Steinn tekur sitt annað leikhlé. Fimm marka munur og tæplega 30 sekúndur til leiksloka.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert