Margar vélar af Íslendingum á leiðinni

Bolli Már Bjarnason og Þór Bæring halda uppi stuðinu í …
Bolli Már Bjarnason og Þór Bæring halda uppi stuðinu í Zagreb. mbl.is/Eyþór Árnason

„Mér líður hrikalega vel,“ sagði útvarpsmaðurinn og uppistandarinn Bolli Már Bjarnason í samtali við mbl.is í miðborg Zagreb í kvöld. Bolli hefur stutt íslenska liðið áfram á HM í ár og heldur því áfram í stórleiknum við Slóveníu í kvöld.

„Það hefur verið hæg atrenna að þessum stóra leik. Nú er komið að þessu. Fólk er ekkert eðlilega peppað fyrir þessu. Við vorum með pöbbquiz hérna sem tókst hrikalega vel. Nú er komið að stóru stundinni og ef við vinnum þennan leik er gatan greið,“ sagði Bolli og hélt áfram:

„Það er greinilegt að það er búið að bætast í hópinn hjá Íslendingunum. Þetta er góð upphitun fyrir milliriðla þegar koma margar vélar af Íslendingum. Þetta er veisla og staðurinn Johan Franck sem við erum á er algjör veisla.“

Bolli er ekki aðeins að skemmta sér í Zagreb heldur einnig að taka upp efni fyrir útvarpsþáttinn Ísland vaknar á K100.

„Ég er að fanga stemninguna. Ég er svo að taka viðtöl við fólk sem við spilum í þættinum Ísland vaknar á K100. Við erum ekki að tala við leikmenn eða þjálfara heldur íslenska stuðningsmenn. Við erum að flytja stemninguna.“

Ógeðslega góð tilfinning

Hann er spenntur fyrir leiknum í kvöld, enda mikið undir gegn sterku liði.

„Ég er ekki stressaður heldur spenntur. Loksins fáum við alvöruleik og ég finn hvað er mikið undir. Við erum að spila á móti liði sem lenti í fjórða sæti á Ólympíuleikunum. Þetta er 50/50 leikur en ég er með ógeðslega góða tilfinningu fyrir þessu.

Ég hef einu sinni farið á stórmót áður og það var með knattspyrnulandsliðinu. Það var rosalega stórt og mikið. Þetta er aðeins minna og maður þekkir eiginlega alla hérna. Það er gaman að kynnast fólki, halda uppi fjörinu og gera þetta vel.“

Bolli hvetur alla sem hafa tök á að skella sér til Zagreb og styðja íslenska liðið áfram.

„Þeir sem eiga eftir að kaupa miða í milliriðlana, drífið í þessu. Við vinnum Slóveníu í kvöld og svo erum við bara að fara í átta liða úrslit. Það er mikið eftir af þessu móti og ég er smá svekktur yfir að vera á leiðinni heim. Ég mæti aftur ef við förum úr milliriðlinum,“ sagði Bolli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert