Núna er þetta handbolti

Sigvaldi var í góðu skapi er hann ræddi við mbl.is.
Sigvaldi var í góðu skapi er hann ræddi við mbl.is. mbl.is/Eyþór Árnason

Sigvaldi Björn Guðjónsson, hægri hornamaður íslenska landsliðsins í handbolta, er ánægður með frammistöðu Íslands á HM til þessa en liðið hefur unnið stórsigra á Grænhöfðaeyjum og Kúbu.

„Ég held við séum mjög sáttir við frammistöðuna í þessum leikjum. Við vorum einbeittir í 60 mínútur, sem er aðalatriðið hjá okkur. Við vorum tilbúnir og gerðum þetta ágætlega.“

„Við höfum skipt mínútunum vel og nær allir fengið að spreyta sig. Það eru allir í góðu standi og meiðslalausir. Aron er svo kominn inn og það gerir mikið. Við erum spenntir og tilbúnir í að byrja almennilega núna,“ sagði Sigvaldi við mbl.is.

Ísland leikur úrslitaleik við Slóveníu um toppsæti G-riðilsins klukkan 19.30 í kvöld. Sigurliðið tekur með sér fjögur stig í milliriðil og er í góðri stöðu um að fara í átta liða úrslit.

„Maður er orðinn spenntur. Þetta er úrslitaleikur riðilsins og um hvort liðið fer með fjögur stig í milliriðil. Við erum spenntir að fá alvöru handboltaleik. Núna er þetta handbolti. Við höfum farið vel yfir þá og okkur líður vel. Það eru allir mjög klárir.

Slóvenarnir spila skemmtilegan handbolta með mikið af kerfum. Það er mikið í gangi hjá þeim. Það er mikið um góða handboltamenn í liðinu. Það eru litlir leikmenn í bland við skyttur. Það er góð blanda hjá þeim og skemmtilegur þjálfari líka,“ sagði Sigvaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert