Daninn hrósaði íslenska liðinu í hástert

Leikmenn íslenska liðsins fagna sigri gegn Slóveníu í gær.
Leikmenn íslenska liðsins fagna sigri gegn Slóveníu í gær. mbl.is/Eyþór Árnason

Danski handknattleikssérfræðingurinn Rasmus Boysen hrósaði íslenska karlalandsliðinu í hástert eftir sigurinn í gær gegn Slóveníu, 23:18, í lokaumferð G-riðils heimsmeistaramótsins í Zagreb í Króatíu.

Varnarleikur íslenska liðsins var frábær í leiknum og þá átti Viktor Gísli Hallgrímsson stórleik í markinu og varði 16 skot, þar af eitt vítakast. Markvörðurinn var með 49 prósent markvörslu.

„Þetta er lægsti markafjöldi sem Slóvenar hafa skorað í leik á stórmóti síðan liðið skoraði einungis 16 mörk gegn Þýskalandi á Evrópumótinu árið 1996,“ skrifaði Boysen á samfélagsmiðilinn X.

„Íslenska vörnin á skilið virðingu fyrir þessa frammistöðu sem og Hallgrímsson í markinu. Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland vinnur riðilinn sinn á heimsmeistaramóti síðan árið 2011,“ bætti Daninn við.

Næsti leikur Íslands er gegn Egyptalandi í milliriðli fjögur í Zagreb á morgun en liðin eru í efstu sætum riðilsins með fjögur stig hvort. Leikurinn hefst klukkan 19:30 og verður í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert