„Maður er kominn niður eftir gærdaginn, þótt það hafi verið erfitt að sofna,“ sagði Óðinn Þór Ríkharðsson, hægri hornamaður íslenska landsliðsins í handbolta, í samtali við mbl.is á hóteli landsliðsins í Zagreb í dag.
Ísland vann sannfærandi 23:18-sigur á Slóveníu í gær, tryggði sér toppsæti G-riðils og fjögur stig með sér í milliriðil.
„Mér leið vel snemma í leiknum og það var rosalegur baráttuvilji í okkur. Maður hafði engar áhyggjur af þessu. Við vorum með fulla stjórn á leiknum. Viktor var að verja það mikið og það var engin ástæða til að hafa áhyggjur,“ sagði Óðinn.
Mikil læti voru í höllinni í Zagreb í gær og mun meiri stemning en í tveimur fyrstu leikjunum.
„Það var frábært að spila þennan leik. Stemningin var góð og baráttuviljinn í hópnum var rosalegur og það sigldi þessu í höfn hjá okkur. Þristablokkin okkar var geggjuð og stóð þvílíkt margar árásir af sér. Svo varði Viktor þegar þeir komust í gegn,“ sagði Óðinn.