Stuðningsfólk íslenska karlalandsliðsins í handbolta flykkist nú til Zagreb þar sem liðið hefur leik í milliriðli á HM annað kvöld. Borið hefur á því að stuðnings- og fjölmiðlafólk hafi lent í því að svindlað hafi verið á því.
Herdís Rútsdóttir, sem mbl.is ræddi við fyrir sigurinn glæsilega gegn Slóveníu í gærkvöldi, vekur athygli á því í stuðningsmannahóp Íslands á Facebook að reynt hafi verið að svindla á manni sínum þegar hann ætlaði að kaupa drykk fyrir hana á Arena Zagreb.
„Maðurinn minn lenti í frekar leiðinlegu atviki á leikvanginum sem ég vildi upplýsa ykkur um. Hann fór í hálfleik að kaupa eina kók fyrir mig og þegar að hann er að borga á posanum finnst honum svipurinn á afgreiðslustúlkunni eitthvað skrítinn svo hann biður hana um strimilinn. Þá hafði hún rukkað hann um 60 evrur!
Eins gott að hann rak augun í þetta og kallaði í kjölfarið á einhvern eldri mann þarna bak við barborðið sem borgaði honum peninginn til baka,“ skrifaði Herdís.
Hún bætti við:
„Eins lentum við í því fyrir tveimur dögum síðan að vinafólk okkar var rukkað um 85 evrur af taxa heim af leikvanginum. Við prúttuðum við okkar áður en lagt var af stað og fyrir fram ákveðið verð var 21 evra.“
Í athugasemd við færslu Herdísar skrifar Ívar Benediktsson, ritstjóri Handbolta.is, að best sé að styðjast við leigubílaþjónustu á við Bolt eða Uber í Zagreb til þess að forðast möguleikann á því að vera ofrukkaður.
Starfsmenn mbl.is og Morgunblaðsins þurftu til að mynda að greiða um 100 evrur fyrir leigubíl eftir leik Króatíu og Barein á Arena Zagreb í síðustu viku.