Eitt besta lið mótsins

Viggó Kristjánsson.
Viggó Kristjánsson. mbl.is/Eyþór Árnason

Viggó Kristjánsson og liðsfélagar hans í íslenska landsliðinu í handbolta voru enn kátir í gær eftir sigurinn á Slóveníu á HM í á mánudagskvöld. Þeir fögnuðu þó ekki of mikið enda erfiður leikur fram undan gegn Egyptalandi í kvöld.

„Það er enn gleði í hópnum eftir sigurinn en að sama skapi erum við byrjaður að búa okkur undir Egyptana. Við þurfum að undirbúa þann leik eins vel og við gerðum gegn Slóveníu.

Við spiluðum mjög góða vörn á móti Slóveníu og Viktor Gísli var frábær. Sóknin var kannski aðeins hikandi til að byrja með en svo kom meira flot í hann. Síðustu 10-15 mínúturnar vorum við að klikka á færum en spila okkur í góð færi. Við erum mjög sáttir með sigurinn,“ sagði Viggó við mbl.is.

Egyptaland gerði sér lítið fyrir og vann gestgjafa Króatíu í lokaleik sínum í riðlinum og tryggði sér toppsæti hans.

„Þeirra sigur á Króatíu var svipaður og okkar sigur í gær. Þeir spiluðu svakalega fast og eru hrikalega góðir. Maður þekkir þessa leikmenn minna þótt þeir séu með leikmenn í sterkum liðum.

Þegar þeir hitta á sinn dag er þetta eitt besta lið mótsins. Vonandi hjálpar okkur að það vantar leikmenn í þeirra lið. Við verðum að undirbúa okkur mjög vel,“ sagði Viggó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert