Ekkert skemmtilegra en þegar menn koma kvartandi

Ýmir Örn Gíslason fagnar með tilþrifum með herbergisfélaga sínum Viggó …
Ýmir Örn Gíslason fagnar með tilþrifum með herbergisfélaga sínum Viggó Kristjánssyni í leiknum gegn Slóveníu á HM á mánudagskvöld. Morgunblaðið/Eyþór

Ísland mætir Egyptalandi í fyrsta leik sínum í milliriðli HM karla í handbolta í Zagreb klukkan 19.30 í kvöld. Með sigri er íslenska liðið nánast öruggt með sæti í átta liða úrslitum og verður mikið undir en bæði lið unnu sinn riðil og fara með fjögur stig í milliriðilinn.

Íslenska liðið kom sér í góða stöðu með sigrinum á Slóveníu, 23:18, á mánudagskvöldið.

Leggjum meira á okkur

„Maður er kominn niður á jörðina enda stutt í næsta leik,“ sagði Ýmir Örn Gíslason, línu- og varnarmaður íslenska landsliðsins í handbolta, í samtali við Morgunblaðið.

„Undirbúningurinn er hafinn fyrir leikinn við Egyptaland. Maður getur ekki leyft sér að vera endalaust í skýjunum,“ sagði Ýmir.

Hann var í lykilhlutverki í glæsilegum varnarleik Íslands gegn Slóveníu. Þar fyrir aftan átti Viktor Gísli Hallgrímsson svo magnaðan leik í markinu.

„Við komum mjög vel undirbúnir í leikinn. Við erum líka góðir í vörninni þegar við smellum. Við erum tilbúnir að leggja meira á okkur og við áttum okkur á því að góð vörn og góð markvarsla vinnur leiki. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Það sást í leiknum við Slóveníu að þegar við spilum góða vörn, erum ákafir og tilbúnir að hjálpa þá hörfa þeir aðeins og koma ekki eins vel í sínar árásir.

Viktor var rosalegur

Þá fórum við að stela boltum og fáum fullt af auðveldum mörkum úr hraðaupphlaupum í fyrri hálfleik. Þar liggur grunnurinn að þessu. Það er ekkert skemmtilegra en að finna mann koma á sig og hann byrjar að kvarta. Þá höldum við áfram og þetta verður enn skemmtilegra. Viktor er svo orðinn frábær og hann var rosalegur á móti Slóvenunum. Heilt yfir er hann góður markvörður. Hann er stór og mikill og virkilega góður í að loka,“ sagði hann.

Fjölmargir Íslendingar hafa lagt leið sína til Zagreb síðustu daga eftir rólega fyrstu leiki. Íslenska liðið verður væntanlega ansi vel stutt í milliriðlinum.

„Það voru fleiri Slóvenar í höllinni og voru með mikil læti. Það er samt alltaf jafn góður stuðningur frá okkar stuðningsmönnum og gaman að sjá þá í stúkunni. Það eru nokkrar vélar á leiðinni og þá verða Íslendingarnir fleiri og með meiri læti. Við erum spenntir fyrir því,“ sagði Ýmir.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert