Ísland tók risastórt skref í áttina að átta liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í handbolta með sigri á Egyptalandi, 27:24, í fyrsta leik liðanna í milliriðli í Zagreb í kvöld. Ísland er á toppi riðilsins með sex stig, tveimur stigum meira en Egyptaland, Króatía og Slóvenía.
Hefur íslenska liðið unnið alla fjóra leiki sína á mótinu til þessa.
Lítið var skorað í upphafi leiks og var Janus Daði Smárason með eina markið fyrstu tæpu sjö mínúturnar. Viktor Gísli Hallgrímsson byrjaði mjög vel í markinu og var staðan 1:0 fram að 7. mínútu þegar Janus breytti stöðunni í 2:0.
Egyptar skoruðu næstu tvö mörk og jöfnuðu í 2:2 á 9. mínútu. Ísland náði frumkvæðnu aftur eftir það og Orri Freyr Þorkelsson breytti stöðunni í 5:3 á 13. mínútu. Munurinn varð þrjú mörk í fyrsta skipti í stöðunni 7:4 skömmu síðar.
Liðin skiptust á að skora næstu mínútur. Ísland hélt forystunni, án þess þó að ná að hrista Egyptana af sér. Munurinn varð þó fjögur mörk í fyrsta og eina skiptið í fyrri hálfleik þegar Viggó Kristjánsson skoraði úr víti eftir að leiktíminn rann út.
Voru hálfleikstölur því 13:9 Íslandi í vil.
Ísland byrjaði seinni hálfleikinn frekar vel og var munurinn fimm mörk eftir tíu mínútur af honum, 19:14. Sem fyrr gekk þó illa að hrista Egypta af sér og munaði þremur mörkum þegar seinni hálfleikur var hálfnaður, 20:17.
Íslenska liðið svaraði því með virkilega góðum kafla og náði sex marka forskoti í fyrsta skipti þegar tólf mínútur voru eftir, 24:18. Sem fyrr svöruðu Egyptar og munaði fjórum mörkum þegar níu mínútur voru til leiksloka, 24:20.
Aron Pálmarsson kom Íslandi í 27:22 þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka og voru Egyptar ekki líklegir til að jafna eftir það.
Viggó Kristjánsson var markahæstur íslenska liðinu með níu mörk og Aron Pálmarsson skoraði átta. Orri Freyr Þorkelsson var næstur með þrjú. Viktor Gísli Hallgrímsson varði 15 skot í íslenska markinu, þar af eitt víti.
Næstu leikur Íslands er gegn heimamönnum í Króatíu á föstudagskvöld klukkan 19.30. Dagur Sigurðsson stýrir króatíska liðinu.