Talsverðar líkur eru á því að Íslandi muni nægja að vinna Argentínu í lokaumferð milliriðlakeppni heimsmeistaramóts karla í handknattleik á sunnudaginn til þess að tryggja sér sæti í átta liða úrslitunum.
Ísland er með 6 stig, Egyptaland 4, Slóvenía 4 og Króatía 4 stig en tvö þessara liða komast í átta liða úrslit.
Skoðum möguleikana sem eru fyrir hendi:
1) Sigur gegn Króatíu á föstudagskvöldið myndi koma Íslandi í átta liða úrslitin. Þá væri liðið komið með 8 stig fyrir lokaumferðina en Króatía aðeins 4 og og þar sem Egyptaland og Slóvenía mætast fyrr á föstudeginum gætu aldrei bæði liðin náð 8 stigum. Vegna innbyrðis úrslitanna væri Ísland þá þegar orðið sigurvegari í riðlinum.
2) Jafntefli gegn Króatíu myndi þýða að Ísland væri með 7 stig, áfram efst fyrir lokaumferðina, sama hvernig aðrir leikir færu. Þá myndi jafntefli gegn Argentínu alltaf duga til þess að fara áfram og sigur myndi tryggja efsta sæti riðilsins.
3) Tap gegn Króatíu með einu til þremur mörkum myndi þýða að Ísland væri með 6 stig fyrir lokaumferðina, og væri þá jafnt Króatíu og annað hvort Egyptalandi eða Slóveníu (nema þau skilji jöfn). Þá væri Ísland öruggt með annað sætið í riðlinum með því að vinna Argentínu í síðasta leiknum, vegna innbyrðis úrslita gegn Egyptalandi og Króatíu.
4a) Ef Ísland tapar leiknum gegn Króatíu með fjórum mörkum eða meira á liðið á hættu að komast ekki í átta liða úrslit, jafnvel þótt sigur vinnist á Argentínu í lokaumferðinni. Til þess að það verði í hættu þarf Egyptaland að vinna Slóveníu fyrr um daginn. Þá gætu Ísland, Egyptaland og Króatía öll endað með 8 stig og Ísland verið í þriðja sæti á innbyrðis úrslitum.
4b) Ef Slóvenar vinna Egypta eða leikurinn endar með jafntefli þolir íslenska liðið að tapa með fimm marka mun eða meiru fyrir Króötum. Þá færi liðið samt áfram með sigri á Argentínu, á 8 stigum, vegna þess að Slóvenar og Króatar eiga eftir að að mætast í lokaumferðinni og geta því aldrei bæði náð 8 stigum.