„Ég er mjög ánægður og stoltur af strákunum,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir 27:24-sigur Íslands gegn Egyptalandi í 1. umferð milliriðils fjögur í Zagreb í Króatíu í kvöld.
Með sigrinum tyllti íslenska liðið sér á toppinn í milliriðli fjögur, með 6 stig, og hefur tveggja stiga forskot á Króatíu, Slóveníu og Egyptaland þegar tveimur umferðum er ólokið en Ísland mætir Króatíu á föstudaginn og loks Argentínu á sunnudaginn kemur.
„Mér fannst þeir frábærir í kvöld, nánast allan leikinn. Þetta var gríðarlega vel gert hjá þeim, að fylgja eftir góðri frammistöðu gegn Slóveníu. Það er ekkert mál að gera eitthvað einu sinni og núna gerðum við það aftur. Við þurfum að gera það aftur á þessu móti en þetta var mjög góð frammistaða heilt yfir hjá mínu liði,“ sagði Snorri Steinn.
Íslenska liðið var með yfirhöndina allan tímann, leiddi með fjórum mörkum í hálfleik, og náði mest sex marka forskoti í síðari hálfleik.
„Mér líður aldrei vel, einhvernveginn. Það er bara þannig að ef þú slakar á gegn góðum liðum þá ertu búinn að missa það einn tveir og þrír. Mér leið ekki illa en ég var aldrei í rónni heldur. Þetta var svipaður að einhverju leyti en Egyptar eru öðruvísi lið. Við vorum frábærir varnarlega og Viktor Gísli var aftur flottur. Dettum aðeins niður á ákveðnum köflum en við vorum betri sóknarlega. Gísli Þorgeir kemur mjög vel inn í þetta. Þeir ráða illa við hann og hann skapar fullt af færum fyrir okkur. Ég er ekki mikið fyrir það að bera saman sigra, þetta voru bara tveir frábærir sigrar.“
Væru vonbrigði að komast ekki áfram í átta liða úrslitin eftir þessa byrjun á mótinu?
„Það hefðu alltaf verið vonbrigði að komast ekki í átta liða úrslitin, þekkjandi mig og liðið. Við þurfum samt að slaka á og við megum ekki fara fram úr okkur ennþá. Við slökum á, njótum kvöldsins, förum glaðir á koddann og svo er það bara laserfókus á leikinn gegn Króatíu sem eru með frábært lið, og á heimavelli,“ sagði Snorri Steinn í samtali við mbl.is í Zagreb í kvöld.