„Þetta var næstum því heimskuleg spurning, svarið er svo augljóst,“ sagði kampakátur Elliði Snær Viðarsson, línumaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir 27:24-sigur Íslands gegn Egyptalandi í 1. umferð milliriðils fjögur í Zagreb í Króatíu í kvöld þegar hann var spurður að því hvernig honum liði eftir frækinn sigur íslenska liðsins.
Með sigrinum tyllti íslenska liðið sér á toppinn í milliriðli fjögur, með 6 stig, og hefur tveggja stiga forskot á Króatíu, Slóveníu og Egyptaland þegar tveimur umferðum er ólokið en Ísland mætir Króatíu á föstudaginn og loks Argentínu á sunnudaginn kemur.
„Mér líður mjög vel. Þetta var algjörlega geggjaður leikur og mér finnst við ennþá eiga einn gír inni sem gefur góð fyrirheit um framhaldið. Við vissum það, farandi inn í leikinn, að þetta er lið sem að vill alls ekki keyra upp hraðann í sínum leikjum. Að vera með fjögurra marka forskot gegn þannig liði er í raun eins og að vera með átta marka forskot. Okkur leið mjög vel allan leikinn og við mölluðum í gegnum seinni hálfleikinn, sem ég er mjög ánægður með,“ sagði Elliði.
Íslenska liðið var með yfirhöndina í leiknum allan tímann og lét forystuna aldrei af hendi.
„Varnarlega vorum við mjög þéttir og einu skiptin sem þeir skora á okkur var annaðhvort þegar þeir troða boltanum inn á línuna eða ná að pressa okkur alveg niður í teiginn. Viktor Gísli var flottur fyrir aftan okkur líka. Við duttum aðeins niður, varnarlega, í seinni hálfleik en vorum samt alltaf þéttir. Sóknarlega vorum við klókir og þolinmóðir. Við spiluðum langar sóknir og vorum með færri tapaða bolta en oft áður. Mér líst virkilega vel á framhaldið.“
Íslenska liðið hefur unnið alla fjóra leiki sína á mótinu til þessa og er mikil stemning í liðinu.
„Það er alltaf gaman að vera í landsliðinu, hvort sem við vinnum eða töpum, en það er klárlega skemmtilegra þegar við vinnum. Stemningin er mjög góð og verður alltaf betri, eftir því sem líður á. Við eigum tvo leiki eftir, sem við ætlum okkur að vinna. Króatarnir verða að vinna okkur til þess að eiga möguleika á sæti í átta liða úrslitunum þannig að leikurinn gegn þeim verður hörkuleikur en við ætlum okkur í átta liða úrslitin úr þessu,“ bætti Elliði Snær við í samtali við mbl.is í Zagreb.