„Þetta er stórkostlegt,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is í miðborg Zagreb í kvöld.
Þorgerður hefur verið í stúkunni á fleiri stórmótum en flestir, fyrst til að fylgja eiginmanni sínum Kristjáni Arasyni og svo syni sínum Gísla Þorgeiri Kristjánssyni.
„Það er alltaf ótrúlega gaman á svona mótum og stemningin núna fyrir Egyptaleikinn er frábær. Við fjölskyldan erum alltaf spennt að fara í svona leiki og í svona spennu og hún er að magnast upp núna. Það er mjög mikið undir gegn Egyptum,“ sagði hún.
„Kristianstad fyrir tveimur árum var frábær en það var ekki eins gaman í München. Þetta fer mikið eftir hvernig strákunum okkar gengur. Það er eitthvað í loftinu hérna og það er mikil gleði. Það er enn gengið hægt um gleðinnar dyr en samt er ofsagaman.
Það er frábært að sjá hvað það eru margir sem vilja fylgja landsliðinu. Á örlagastundu geta áhorfendur verið eins og viðbótarmaður,“ sagði hún.
Þorgerður veitti Viktori Gísla Hallgrímssyni viðurkenningu fyrir að vera maður leiksins gegn Slóveníu á mánudagskvöld.
„Það var gæsahúðaraugnablik. Ég sagði að sjálfsögðu já þegar ég var beðin um þetta. Þetta var mikill heiður, sérstaklega því ég hef verið inni í þessum handbolta svona lengi.
Að láta Viktor Gísla fá verðlaunin eftir þessa mögnuðu frammistöðu, svona frammistaða hjá íslenskum markverði á stórmóti hefur ekki sést í áratugi. Það voru töfrar í þessu hjá honum.
Þetta var svo mikil liðsheild, svo mikil samkennd og stemning. Þjálfarateymið var svo frábært. Þeir lögðu þetta mjög vel upp og nýttu breiddina vel. Á því vannst leikurinn,“ sagði hún.
Þorgerður er spennt fyrir leiknum og í kvöld og bjartsýn sömuleiðis.
„Við þurfum á stuðningnum að halda í kvöld á móti gríðarlega sterkum Egyptum. Þeir eru stórir, sterkir og með sjálfstraustið í lagi en það sama má segja um okkar lið. Við áttum að vinna þá,“ sagði hún.